Blek 1

Blek 2

Blek 3

Blek 4

Blek 5

Blek 6

Blek 7

Blek 8

Blek 9

Blek 10

NeoBlek 10

NeoBlek 11

NeoBlek 12

NeoBlek 13

NeoBlek14/15

NeoBlek 16


 

Mikil vinna liggur oft að baki hverri myndasögu, vinna sem oft er unnin í frístundum, á kvöldin og um helgar. Ein síða getur verið upp undir eina viku í vinnslu frá fyrstu hugmynd að fullteiknaðri atburðarrás. Það er því gaman að sjá þessa teiknara leggja fram svona mikla óeigingjarna vinnu til að koma sjötta blaðinu á koppinn. Kandadískur teiknari hefur komið til liðs við okkur á vængjum póstþjónustunnar. Bætir hann þar með við efni þessa blaðs sem er 12 blaðsíðum stærra en fyrri blöð!

 


Að sökkva sér niður í sjálfsvorkun getur verið góð afþreying en stundum koma dagar þegar maður áttar sig á bjartari hliðum tilverunnar. Það er bersýnilegt í Strætósaga... eftir Þorstein S. Guðjónsson sem er fyrsta sagan í þessu blaði. Þorsteinn á líka eitt viðtal í blaðinu við Zlatko Milenkovic tekið í nóvember 1998. Zlatko er fæddur 24.águst 1969 í Novi Sad og er Júgóslavi. Zlatko er með eina sögu í blaðinu Áflog sem er stutt dæmisaga sem sýnir fram á tilgangsleysi þess að mana fólk út í átök vegna einstrengingslegra sjónarmiða ræðumanna sem sitja hver á sínum andstæða pól talandi sitthvort tungumálið.

Forsíðumynd blaðsins er úr sögunni Endurfundir eftir Paradi. Hann er Kanadamaður sem einhver Blekliðsmaður fann á Internetinu og gaf fúslega leyfi til að birta efitr sig stutta sögu. Í sögunni segir frá vígbúnum riddara sem snýr aftur úr krossför einungis til að finna alla sem hann áður þekkti löngu dána. Hann á þó óuppgerðar sakir við bróður sinn sem ná útfyrir gröf og dauða.

Jón Ingiberg Jónsteinsson heldur áfram með sitt metnaðarfyllsta framlag til þessa í blaðinu Reykjavík eftir myntbreytingu og þráðurinn er tekinn upp þar sem frá var horfið. Félagarnir þrír halda áfram leið sinni að pylsusöluturninum og hitta fyrir ýmsa kunnuglega karaktera á leiðinni. Þaðan liggur leið þeirra svo niður að Tjarnarbíói á Fræbbblatónleika. Jón sýnir fyrirhyggju og er með Túrbó 2000 límtúpu í vasanum en hana hefði hann betur skilið eftir heima.

Eina sagan sem birt hefur verið í blaðinu án þess að spyrja um leyfi frá höfundi fyrst er sagan Dagur í Starfsnámi eftir Ómar Örn Hauksson. Hérmeð er beðist velvirðingar á því en sagan á sér sögulega forsögu sem tengist tilurð blaðsins. Hasarblaðið Blek varð til eftir að hópur fólks úr starfsnámi í Hinu Húsinu ákvað að hittast frekar og búa til myndasögublað. Sagan lýsir degi á slíku námskeiði byggð á mjög svo raunverulegum atburðum.

Að sjálfsögðu vantar ekki framhaldssöguna Úrg Ala Buks Unum eftir Jan Pozok í þetta blað. Við erum stödd þar sem Sigurður Hinrik sér með eigin augum þríhöfða þursinn Urgol birtast upp úr gólfinu hjá tröllskessunni systur sinni. Sigurður sem hélt áður að hún væri Sóldís heitmey sín fær nú staðfestingu á því hvernig í málum liggur. Hann ákveður að fylgja eftir þursinum ofan í gólfið og komast að því hver stendur fyrir öllu þessu en eftir að hafa afhjúpað illmennið Gunnar gerist þó nokkuð sem hann hafði ekki gert ráð fyrir. Jan Pozok er einnig með í tvö viðtöl í blaðinu. Annað er við Búa Kristjánsson útgáfustjóra Nordic Comic þar sem rætt er m.a. um nýjan bókaklúbb fyrir alla þá sem eru með myndasögudellu. Hitt viðtalið er við Eyrúnu Eddu Hjörleifsdóttur og gefur okkur smá innsýn á tilveru og þankagang þessara ungu konu á framabraut.

Eyrún Edda Hjörleifsdóttir er líka með glæsilega myndasögu í blaðinu Hinn blákaldi veruleiki. Hún fjallar í stuttu máli um lífið og tilveruna. Það er "Game over" þegar ungur maður verður fyrir bíl og endar þar með líf sitt. Hinn blákaldi veruleiki tekur við og sannleikurinn rennur upp fyrir honum.

Kjartan Arnórsson tekur annan pól á hetjusöguformið með sínu framlagi Ekkjan Svaða-íkorna sögu. Hetjusögur segja oft bara eina hlið á málum. Nánir aðstandendur þeirra sem eru sagðir skúrkar og glæpamenn í hetjusögunum geta upplifað frásögnina þveröfugt miðað við hina. Þegar Tanja fréttir að Svaða-íkorninn hefur skotið til bana ástina hennar í lífinu snýst að öðru leyti viðburðarlítið líf hennar aðeins um það eitt að ná fram hefndum.

Kristín Hauksdóttir rekur endahnútinn á þetta tölublað að þessu sinni með sögunni 1.apríl. Vinnumaður í garðvinnu ákveður að taka upp tólið þegar síminn hringir. Hann fær ákveðið verkefni upp í hendurnar en það hangir fleira á spýtunni sem hann áttar sig ekki á fyrr en það
kemur í ljós hver það var sem hringdi.