Myndasögublaðið Neo-Blek
(áður Hasarblaðið Blek)

á sér langa forsögu. Það var árið 1996 að hópur áhugamanna um myndasögur kom saman fyrir tilstuðlan Björns Vilhjálmssonar í Hinu Húsinu og myndasögublaði ýtt úr vör – með brosi á vör!

Tildrög þess að Hazarblaðið Blek varð til, var að á þessum tíma sá Hitt húsið um átaks-verkefni/námskeið, Starfsnám; fyrir unga atvinnuleitendur í Reykjavík (þetta var í síðustu kreppu) sem stóðu 6 mánuði. Þar var unga fólkinu boðið upp á starfsþjálfun á ýmsum en einnig var boðið upp á sjálfsprottin verkefni fyrir þá sem voru með hugmyndir sem þá langaði að vinna að (sbr. Undirtónar-mánaðarrit um tónlist og menningu ungs fólks, hazarblaðið Blek, o.fl. verkefni).

Árið 1996 voru í hópi þátttakenda ungir menn (takið eftir menn!) (m.a. Steini og Ómar) sem höfðu áhuga á myndasögum og gerð þeirra. Björn Vilhjámsson, sem stýrði Starfsnáminu og er sjálfur myndasögusafnari og áhugamaður um framgang myndasagna, hvatti þá (ungu mennina) til að vinna að myndun félags áhugamanna um myndasögur og gerð þeirra. Síðan var farið í að stofna félagið á formlegan hátt og í framhaldi af stofnuninni var sótt um styrk til Menningarmálanefndar Reykjavíkur, og fékkst styrkur frá nefndinni að upphæð 300.000, til að gefa út teiknisögu(r).

Eftir að útgáfustyrkurinn góði var fenginn, var farið í að safna saman þeim teiknurum, sem áttu tilbúnar eða næstum tilbúnar sögur til að birta, og huga að útgáfunni.

Var unnið kappsamlega og af metnaði að útgáfunni, og blaðið var síðan prentað í mörg hundruð eintökum og í nokkuð stóru broti. Seinna kom í ljós að markaðurinn fyrir íslenska teiknisögu var stórlega ofmetinn og í mörg ár á eftir voru til margir kassar af Bleki nr. 1 í geymslum Hins Hússins. Og styrkurinn búinn!! Þótti við hæfi að styðja félagið áfram með fræðslu og námskeiðahaldi. Jean Posocco var fenginn til að stýra námskeiði í myndagerð , hópurinn fór einnig af stað með verkefni í að skrifa sögur, o.s.frv. En því miður var ekki hægt að gefa út næsta tölublað alveg strax, af því “Stóra Frumraunin” kostaði nánast allan styrkinn. En nú hafði hópurinn líka lært eitt og annað um gerð, hönnun og útgáfu myndasagna.

Aftur var sótt um styrk til Menningarmálanefndar Rvk – og að þessu sinni fengust 180 eða 200.000. Og þetta var síðasti styrkurinn sem hópurinn hefur fengið frá opinberum- eða einkaaðilum. En lærdómarnir af útgáu tölublaðs 1 voru margir og mikilvægir, og sem dæmi má nefna: Brotið var smækkað niður í klassíska hazarblaðastærð. Félagsmenn reyndu sitt ýtrasta til að afla auglýsinga til að mæta kostnaði fyrir útgáfunni, og á móti var hægt að spara og spara styrkinn. Upplagið var dregið saman úr 1000 (tbl. 1) í 100-200 eintök, og síðast en ekki síst, leitað að ódýrustu mögulegu prentun (t.a.m. voru nokkur tölublöð prentuð á bökkum Svarta hafs!). Og til að gera langa sögu stutta, þá kom eitt tölublað út fyrir “stóra” styrkinn og níu fyrir “litla” styrkinn. Félagið og félagsmenn þroskuðust á ýmsa vegu á langri leið!

Blaðið kom út með óreglulegu millibili, eða bara þegar nægt efni hafði safnast saman og hafði aðsetur í Hinu Húsinu fyrstu árin. Ýmsir málsmetandi höfundar hafa þar stigið sín fyrstu spor sem síðar hafa unnið frekari afrek á þessu sviði m. a. Hugleikur Dagsson og Sigurður Ingi Jensson. Síðustu árin hefur blaðið þó eingöngu haldið lífi vegna ósérhlífinnar seiglu og þrautseigju útgefenda þess Jean Posocco. Bókasöfn landsins hampa þessu blaði sem einu af örfáum íslenskum myndasögublöðum sem gefin hafa verið út frá upphafi. Enn geta nýir og óuppgötvaðir snillingar tekið þátt og sent sögur sínar í blaðið þar sem það er öllum opið og einn megintilgangur þess er einmitt sá að styðja við upprennandi íslenska myndlistarmenn. Neo blek er vetfangur fyrir unga sem aldna sem vilja virkja sköpunarhæfileika sína og auðga þannig menningarflóru landsins. Stefnt er að því að blaðið komi út fjórum sinnum á ári í janúar, mai, september og desember. Svo upp með pappírinn og blýantana, reglustikuna og síðast en ekki síst, blekbyttuna og farðu að teikna!

Björn Vilhjálmsson