Hrafn Arnórsson

Hrafn Arnórsson var síteiknandi krakki.

Ásamt systkinum sínum teiknaði hann út heilu staflana af auðum blöðum jafnóðum og faðir hans bar þá í hús.

Í menntaskóla gaf Hrafn út eigið tímarit með eigin teiknimyndasögum þar sem aðalpersónan var allt annað en friðsöm eða kurteis.

Í háskóla lærði Hrafn eðlisfræði og verkfræði. Eina myndasagan hans ber þess merki og er sú aleðlisfræðinördalegasta sem hann hefur gert. Jafnvel þeim sem hafa lesið eðlisfræði finnst húmorinn
sennilega langsóttur - sem er einmitt meiningin.

Þó má greina vissa sameiginlega drætti í öðrum myndasögum Hrafns, svo sem hrifningu á hinu fáránlega og hinu sjokkerandi. Hrafn teiknar sjaldan nútildags, en áskilur sér rétt til að grípa til þess hvenær sem honum finnst þjóðfélagið vera orðið of værukært.